Kortasjár

Orkustofnun hefur á undanförnum árum rekið tvær kortasjár, Landgrunnsvefsjá og Orkuvefsjá, og veitt með því aðgengi að upplýsingum um staðtengd gögn sem stofnunin sér um og varðveitir. Þá er jafnframt rekin kortavefsjá á vegum stofnunarinnar fyrir niðurstöður tilraunaverkefnis um kortagerð og kortaútgáfu í mælikvarða 1:25 000, en hún byggir á sama hugbúnaði og fyrrnefndar kortasjár. Tveimur eldri kortasjám, Gagnavefsjá og Náttúruvefsjá, var lokað í desember 2011, en þær voru upphaflega unnar innan  Orkustofnunar í samstarfi við aðrar stofnanir hér á landi. Ný kortasjá hefur nú bæst í hópinn (desember 2016), en það er Kortasjá Orkustofnunar sem byggir á hugbúnaðarlausn frá Loftmyndum ehf.

Kortasjá

Kortasjá Orkustofnunar er ný kortasjá (desember 2016), sem ætlað er að birta upplýsingar um þau gögn stofnunarinnar sem nú eru sýnd í Orkuvefsjá og mun sjáin koma með tímanum í stað þess verkefnis. Kortasjáin byggir á notkun hugbúnaðar frá Loftmyndum ehf. þar sem undirliggjandi grunnmynd er nákvæm loftmynd af öllu landinu eins og þekkt er í map.is og tugum verkefna sem byggja á sömu veflausn.  Í fyrstu útgáfu kortasjárinnar eru birtar upplýsingar um borholur, eins og þær koma fram í reglubundnum útgáfum gagnasetta sem byggð eru á gögnum úr Borholuskrá OS. Um þróunarverkefni er að ræða sem getur tekið ýmsum breytingum á næstunni. Nýja kortasjáin mun fyrst um sinn einungis birta upplýsingar á íslensku og er þeim notendum sem þurfa að hafa aðgang að enskum texta um landupplýsingagögn OS vísað áfram á Orkuvefsjá, sem mun verða keyrð samhliða um einhver misseri til viðbótar, þó ekki verði lögð mikil áhersla á frekari þróun hennar.

Mikilvægur þáttur í vinnslu nýju kortasjárinnar er að þróa leiðir til að auðvelda samskipti með upplýsingar um gögn stofnunarinnar, á fyrsta stigi borholur, en settur hefur verið upp innskráningarflipi þar sem hægt er að koma með ábendingar um staðsetningarhnit þar sem þarf að færa til hnit sem ekki eru á réttum stað af einhverjum ástæðum. Síðan er jafnframt mögulegt að senda inn hnitsettar upplýsingar um staðsetningar á borholum sem ekki hafa verið í gagnagrunni OS og jafnframt má senda inn staðsetningarhnit sem vantað hefur í borholuskrána þó ítarlegar upplýsingar séu annars til um holuna. Í fyrstu útgáfu kortasjárinnar eru jafnframt birtar þrenns konar gagnaþekjur fyrir „mörk“, þ.e. núverandi sveitarfélagamörk, eldri gagnaþekja um jarðamörk og gagnasett fyrir hreppa á Íslandi eins og þeir voru þegar þeir voru flestir árið 1950. Á næstunni munu ný uppfærð gagnasett birtast í Kortasjá Orkustofnunar og stefnt er að því að upplýsingar um leyfisveitingar og leyfisveitingasvæði verði næst í röðinni.

Landgrunnsvefsjá

landgrunnsvefsja_skjamyndLandgrunnsvefsjá veitir aðgang að upplýsingum um gögn sem tengjast landgrunni Íslands, en fyrst um sinn er þar einkum efni frá Drekasvæðinu er varðar útboð á sérleyfum til rannsókna og vinnslu á hafsbotni. Sýnd eru reitakerfi fyrir útboðssvæði, yfirlit yfir hafsbotnsgögn og margvíslegar upplýsingar um gögn úr leiðöngrum. Vefsjánni er meðal annars ætlað að auðvelda þeim sem vilja fá upplýsingar um leyfissvæði að finna hvaða gögn eru til, af hvaða svæðum, hver aflaði þeirra og hvernig, hvenær gagnaöflunin fór fram og hvar er mögulegt að fá aðgang að gögnunum. Vefsjáin var opnuð í ársbyrjun 2009 og er efni hennar birt bæði á íslensku og ensku.
Nánar

Orkuvefsjá

ovs_skjamynd1Orkuvefsjá hefur tekið við hlutverki Gagnavefsjár og er nú birtingarstaður upplýsinga um staðtengjanleg gögn um Ísland í málaflokkum sem eru á ábyrgð Orkustofnunar, en vefsjáin var opnuð á Netinu í júní 2010. Stöðugt er unnið að uppfærslu gagnasafna stofnunarinnar og vinnslu lýsigagna fyrir þau, en færa þurfti ýmsar upplýsingarnar sem áður birtust í Gagnavefsjá yfir í annað hugbúnaðarumhverfi. Þá er jafnframt verið að byggja upp ný landræn gagnasöfn sem fyrirhugað er að birta á næstunni. Helstu gagnaflokkar í Orkuvefsjá eru á sviði raforku, jarðhita og nytjavatns, auk þess sem ítarlegar upplýsingar eru um borholur, eldri kortaflokka Orkustofnunar og leyfisveitingar á vegum stofnunarinnar. Vefhugbúnaður er sá sami og notaður er í Landgrunnsvefsjá. Hluti þess efnis Orkuvefsjár sem er í kaflanum Kortasafn hefur verið sett fram með lítið eitt öðrum hætti í tilraunaverkefninu Kortavefsjá – 1:25 000, þar sem jafnframt eru birtar upplýsingar um kort í mælikvarða 1:25 000 frá þremur öðrum stofnunum.
Nánar