Vistvænt eldsneyti

Leiðir til að knýja faratæki með vistvænum hætti eru mjög í umræðunni um allan heim um þessar mundir og hafa möguleikarnir aldrei verið fleiri í þeim efnum. Í þróun eru bílar sem ganga fyrir vetni, rafmagni, bæði rafmagni og bensíni, etanóli, metanóli, bútanóli, metani, E85, lífdísilolíu og jafnvel samanþjöppuðu lofti. Tæknileg útfærsla er þó mislangt á veg komin í hverju tilviki og jafnframt má segja að möguleikarnir henti misvel við íslenskar aðstæður.

Sýn Íslendinga hlýtur að vera sú að geta nýtt frumorkugjafa landsins, einkum vatnsorku og jarðhita, til þess að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi að einhverju eða öllu leyti. Þetta gerist ekki án milliliða, þ.e. orkubera. Hugsanlegt er að nýta háhita beint með lífrænum efnum til að framleiða tilbúið eldsneyti. Að þessum möguleika frágengnum er einsýnt að rafmagn yrði að vera fyrsti milliliðurinn frá orkuuppsprettunni til þeirrar vélar er að lokum knýr farartækið. Æskilegast væri að geta geymt rafmagnið með beinum hætti í rafhlöðum um borð í farartækinu. Þróun í gerð rafhlaðna hefur þó ekki verið með þeim hætti að slík geymsla sé almennt möguleg. Engu að síður verður að dæma aðrar lausnir með hliðsjón af þessari beinu leið til að nýta rafmagnið, þó ekki væri nema vegna þess að með þeirri lausn er nýting orkunnar best, en orkutap í rafhlöðum (við hleðslu, geymslu og aftöppun) er lítið, eða nálægt 10 – 30%, borið saman við u.þ.b. 60% tap í efnarafli knúnum vetni og u.þ.b. 80% í hefðbundinni bensínvél. Aðrar leiðir en bein notkun rafmagnsins kalla á frekari milliliði, t.d. vetni eða aðra orkubera svo sem tilbúið eldsneyti, og við það aukast töpin og nýtnin minnkar, þó í mismiklum mæli sé.

Bæklingur um endurnýjanlegt eldsneyti