Rafbílar

RafmagnsbíllRafbílar eru bílar sem ganga beint og alfarið fyrir rafmagni sem geymt er í rafhlöðum um borð. Meginbúnaður rafbíla samanstendur af rafmótor, rafhlöðum og stýringu tengdri fótstig til að stjórna hraða bifreiðarinnar. Í flestum rafbílum er einnig endurhleðslubúnaður (e. regenerative braking), en stýringin sér um að rafstraumshlutfallið haldist rétt á milli rafhlöðu og rafmótors. Einnig breytir hún jafnstraum (DC) frá rafhlöðu yfir í riðstraum (AC) fyrir rafmótorinn. Mótorinn notar síðan riðstrauminn og umbreytir honum í hreyfiorku sem knýr bílinn áfram, þegar hemlar eru notaðir fer endurhleðslubúnaðurinn að umbreyta orku með því að taka upp hluta hreyfiorkunnar og breyta yfir í rafmagn sem hleðst inn á rafhlöðuna.

Rafhlöðum í rafknúnum ökutækjum má skipta í tvo megin flokka; SLI-rafhlöður og tografhlöður (e.traction battery). SLI-rafhlöður eru í hefðbundnum bifreiðum með brennsluhreyfli, og hafa það hlutverk að gangsetja (S=starting), lýsing (L=lighting) og senda neista í eldsneyti (I=ignition). Tografhlöður hafa hinsvegar það hlutverk að knýja ökutækið áfram.

Algengast er að rafbílar nútímans séu búnir liþíumjónarafhlöðum, þær hafa háa spennu og geta gefið mikla orku miðað við þyngd. Hægt er að endurhlaða þær mörg hundruð sinnum, þessir eiginleikar gera þær að heppilegum kosti þar sem þörf er á miklum orkuþéttleika en litlum massa.

Þar til gsm símar fóru að ryðja sér til rúms og þróun í gerð rafhlaða tók stökk, þóttu rafbílar ekki fýsilegur kostur, og enn eru hentugar rafhlöður afar dýrar. Sem leið til að knýja skip er þessi lausn ekki í augsýn og enn fjær eru rafmagnsknúnar flugvélar. Eigi að síður eru hreinir rafbílar talsvert notaðir víða erlendis í sértækri notkun, þar sem aksturslengdir eru stuttar og auðvelt að koma við tíðri hleðslu. Þetta á við um ýmis konar atvinnuakstur, svo sem við póstburð.

Það sem helst hamlar útbreiðslu rafbíla er hátt innkaupsverð og takmörkuð akstursdrægni, þó er akstursdrægni t.d. Nissa LEAF og Renault Fluence orðin 160 km, sem ætti að uppfylla þarfir flestra, þar sem kannanir benda til að um 8 af hverjum 10 aki minna en 60 km daglega.

Tæknilegir og umhverfislegir kostir rafbíla eru augljósir, bifreiðarnar eru knúnar með innlendu rafmagni, mengunar og hávaða fríar.

Hægt er að fræðast meira um rafbíla hér.