Metan

MetanbílarMetan hefur verið notað hér á landi undanfarin ár sem eldsneyti á nokkrar bifreiðar og fara vinsældir þess sem eldsneytis ört vaxandi. Metan er skæð gróðurhúsalofttegund, um tuttugu sinnum öflugri en koltvísýringur. Því verður að safna metaninu saman og brenna, og eyða því þannig sem gróðurhúsalofttegund, og þá er sjálfsagt að reyna að nýta það eftir megni.

Bílar sem keyra á metani og bensíni, svokallaðir fjölorkubílar, eru nú þegar á markaði. Flestir bílaframleiðendur bjóða upp á eina eða fleiri gerðir metanbíla. Einnig bjóða hérlendir aðilar upp á breytingar á bílum gerðum fyrir jarðefnaeldsneyti. Metani er nú safnað á Álfsnesi og er það að hluta nýtt sem eldsneyti á farartæki, en sem dæmi má nefna að hægt væri að keyra um 20 strætisvagna á því metani sem safnað er nú þegar á hverju ári. Hugsanlegt er að safna metani á fleiri sorphaugum eða vinna það úr öðrum úrgangi, til dæmis skólpi. Þetta er umhverfisvænn kostur en mun líklega ekki ráða baggamun einn og sér sökum þess hve lítið er hægt að framleiða af metani með þessum aðferðum. Þó væri hægt að framleiða metan úr ræktuðum plöntum, líkt og etanól og lífdísilolíu. Sá kostur hefur ekki verið kannaður svo neinu nemi hérlendis.

Metan sem ökutækjaeldsneyti getur í meginatriðum átt sér tvær uppsprettur. Annars vegar sem lífrænt eldsneyti unnið úr úrgangi eða ræktuðum plöntum og hins vegar úr jarðgasi. Jarðgas er flutt kælt með stórum tankskipum milli heimsálfa og því er sá möguleiki fyrir hendi að flytja það inn til móts við metan framleitt hérlendis.

Á höfuðborgarsvæðinu er  sem sagt til vistvænn alíslenskur kostur í stað hins hefðbundna ökutækjaeldsneytis sem ekki tekur verðbreytingum í samræmi við duttlunga á heimsmarkaði.  Auk þess er hér um að ræða ódýrasta eldsneytið á markaðnum í dag! 

Hægt er að fræðast meira um metan á heimasíðu Metans hf. og hér.