Orkuskipti í samgöngum á landi og í haftengdri starfsemi

Samkvæmt þingsályktun nr. 18/146 um aðgerðaráætlum um orkuskipti sem samþykkt var 31. maí 2017 er áætlað að auka hlutdeild innlendra endurnýjanlegra orkugjafa á kostnað jarðefnaeldneytis. Með orkuskiptunum má búast við orkusparnaði, auknu orkuöryggi, gjaldeyrissparnaði og minni losun gróðurhúsalofttegunda. Í aðgerðaráætlun eru atriði eins og markmið um orkuskipti, hagrænir hvatar, innviðir, orkusparnaður, samstarf og rannsóknir, þróun, nýsköpun og alþjóðarsamstarf höfð að leiðarljósi.

Markmið um orkuskipti eru að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi frá 6% árið 2017 í 10% fyrir árið 2020 og 40% árið 2030. Sömuleiðis er stefnt að því að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku í haftengdri starfsemi, en hlutfallið fyrir innlend fiskiskip var 0,1% árið 2017, í 10% árið 2030. 

Hagrænir hvatar og ívilnanir munu hvetja neytendur og fyrirtæki við val á endurnýjanlegum orkugjöfum sem og innviðir sem tryggja framgang orkuskipta. Fleiri rafhleðslustöðvar utan þéttbýlis má nefna sem dæmi um innviði. Betri orkunýting eldsneytis hvort sem það er af jarðefna- eða endurnýjanlegum uppruna mun stuðla að orkusparnaði.