Hrunið hafði áhrif á forsendur

Sett hafa verið inn í orkuspárlíkanið ný gögn um eldsneytisnotkun, mannfjölda og ýmsar hagstærðir. Hafa ber í huga að þjóðfélagið hefur breyst mikið undanfarin ár samhliða miklum framkvæmdum í orkumannvirkjum, iðjuverum og húsbyggingum sem leiddu af sér mikinn aðflutning erlendra ríkisborgara til landsins. Eftir þetta mikla hagvaxtarskeið, en því fylgdi veruleg aukning raforkunotkunar, kom haustið 2008 mesta samdráttarskeið sem sést hefur hér á landi áratugum saman. Afleiðing samdráttarins var m.a. minnkuð orkunotkun bæði raforku- og eldsneytisnotkun. Eftirtaldar breytingar hafa verið gerðar á forsendum eldsneytisspárinnar frá 2008: 

Landsframleiðsla

Fyrir næstu ár er tekið mið af áætlun frá Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, sjá Peningamál frá 17. ágúst 2011 og Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá 24. nóvember 2011. Landsframleiðsla dróst saman un 6,7% árið 2009 og 4% árið 2010 en árið 2011 er talið að hún hafi aukist um 3,1%. Í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands er miðað við að landsframleiðsla muni aukast um 2,4% árið 2012 og 2,5% árið 2013. Í forsendum eldsneytisspár er einungis gert ráð fyrir þeim stóriðjuframkvæmdum sem þegar hafa verið ákveðnar og gengið hefur verið frá öllum samningum um þær og orkukaupum. Miðað er því við heldur minni hagvöxt á allra næstu árum en fram kemur í áætlun Hagstofu Íslands og Seðlabankans enda er hér gert ráð fyrir minni framkvæmdum við stóriðjuver. Í spá til lengri tíma er jafnvægishagvöxtur talinn vera 2,2–2,5% á ári en veruleg óvissa er ætíð í spám um hagvöxt.

Mannfjöldi og fjöldi heimila: Í þessum endurreikningi er notuð fólksfjöldaspá Hagstofu Íslands frá mars 2011, fyrir árabilið 2011–2060. Forsendur spárinnar eru í aðalatriðum þær sömu og lýst var í Hagtíðindum 13. júlí 2010. Nokkrar breytingar voru þó gerðar á reiknilíkönum fyrir búferlaflutninga. Síðustu árin hafa orðið verulegar breytingar hvað varðar aðflutning og brottflutning fólks og af þeim sökum hefur fjölgun fólks verið mismikil undanfarin ár. Árið 2011 var mannfjöldi á landinu (um mitt ár) rúmlega 319 þúsund manns og hafði þá fjölgað um eitt þúsund manns frá 2010 en fjöldinn er nú álíka mikill og árið 2008. Í spánni frá 2008 var fjöldinn áætlaður rúmlega 327 þúsund. Spáin nú miðar við að um 418 þúsund manns verði á landinu árið 2050 en árið 2008 var miðað við nokkuð meiri fjölda eða 425 þúsund manns. Mikla óvissu verður að telja í forsendunni um aðflutning fólks en hér er miðað við spá Hagstofu Íslands. Þróun síðustu ára hvað varðar aðflutning fólks hefur verið eftirfarandi undanfarin ár:

 Ár  Aðfluttir umfram brottflutta
 2011 -1.400
 2010 -2.100
 2009    
-4800
2008
1.100
2007
5.100
2006
5.300
2005
3.900

Meðaltal aðfluttra umfram brottflutta síðustu fimm ár er um -400 á ári en ef horft er á síðustu tuttugu ár hafa að meðaltali 400 fleiri flutt til landsins á ári en frá því.  Síðustu fimm ár fluttu að meðaltali rúmlega 1.200 Íslendingar frá landinu á ári umfram þá sem fluttu til landsins en flutningarnir voru á hinn veginn hvað varðar erlenda ríkisborgara, 800 fleiri fluttu að meðaltali til landsins en frá því.

Þróun olíuverðs: Olíuverð á heimsmarkaði hefur hækkað á undanförnum árum. Frá því síðasta spá kom út árið 2008 hefur olíuverð verið hátt í sögulegu samhengi. Aukin þörf í heiminum fyrir olíu, sérstaklega í Kína og öðrum þróunarríkjum, hefur verið ein aðalorsökin fyrir háu olíuverði undanfarin ár. Flestir sérfræðingar spá því að olíuverð verði áfram hátt á næstu árum og til lengri tíma litið er gert ráð fyrir hækkandi olíuverði og gerir t.d. EIA ráð fyrir að það verði komið í 145 USD/tunnu árið 2035 (verðlag 2010, sjá Energy Information Administration, 2012). Í byrjun árs 2011 var verðið rúmir 90 USD/tunnu en að undanförnu hefur það verið ennþá hærra eða nálægt 120 USD/tunnu. Helsta ástæða fyrir háu olíuverði næstu áratugi er aukin notkun olíu og þá sérstaklega í samgöngum en EIA spáir að notkunin muni aukast um 1,0 % á ári til 2035 (sjá Energy Information Administration, 2011).

Atvinnustarfsemi:

Nýjar rauntölur hafa verið settar inn varðandi atvinnustarfsemi í landinu þar sem slíkt liggur fyrir samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands.

Fiskafli:

Varðandi fiskveiðar og vinnslu hafa aflatölur næstu ára verið samræmdar nýjustu tölum Hafrannsóknastofnunarinnar (sjá Hagstofa Íslands, 2012). Til lengri tíma litið eru aflatölur óbreyttar frá því sem gert var ráð fyrir í spánni frá 2008.

Flutningar með skipum:

Engar breytingar eru gerðar á forsendum varðandi flutninga með skipum. Hafa þarf í huga að í gögnum um eldsneytisnotkun síðustu ára lendir líklega notkun erlendra flutningaskipa með notkun erlendra fiskiskipa.

Bifreiðar

: Frá árinu 2008 hefur innflutningur bifreiða verið lítill og bifreiðum hefur heldur fækkað á þessu tímabili. Nýjar tölur hafa verið fengnar um fólksbifreiðaeign eftir aldri og kyni og er hér tekið mið af tölum í lok árs 2011. Bifreiðaeign karla helst óbreytt út spátímabilið en hjá konum hækkar hún en er nú heldur lægri árið 2050 en í spánni frá 2008. Út frá þessum gögnum er nú áætlað að bifreiðar verði heldur færri en í spánni frá 2008 og munar rúmlega 17 þúsund bifreiðum árið 2050 og akstur minnkar um 10% frá þeirri spá.

Flug:

Innanlandsflug hefur dregist saman frá því að það náði hámarki árið 2007 og hefur notkun þotueldsneytis hér innanlands á síðustu tveimur áratugum einungis tvívegis verið minni en hún var árið 2011. Út frá rauntölum síðustu ára er nú gert ráð fyrir heldur minni flutningum í innanlandsflugi til lengri tíma litið og við lok spátímabilsins munar um 10% frá spánni 2008. Flutningar með millilandaflugi minnkuðu mikið í kjölfar hrunsins 2008 en nú eru þeir farnir að vaxa að nýju og framundan virðist að nýju vera verulegur vöxtur á þessu sviði. Hér er gert ráð fyrir að niðursveiflan að undanförnu hafi seinkað vexti þessa þáttar en gert er ráð fyrir að hraður vöxtur næstu ár muni leiða til þess að flutningarnir í millilandaflugi verði einungis 4% minni en í eldri spá við lok spátímabilsins. Þar að auki er gert ráð fyrir að frekari árangur náist í bættri orkunýtingu svo notkun þotueldsneytis árið 2050 verði um 8% minni en í spánni frá 2008.

Orkunotkun bifreiða á ekinn km hefur verið lækkuð í samræmi við nýjar rauntölur en þróunin á spátímabilinu er síðan áætluð á sama hátt og í síðustu spá, sjá myndirnar hér að neðan. Hátt eldsneytisverð leiðir af sér að notkun fer minnkandi á ekinn km og einnig mun hlutur annarra orkugjafa en olíu aukast á spátímabilinu en þó minna en í spánni frá 2008.

Meðalársnotkun bifreiða á bensíni 1983-2011, í hlutfalli við meðalbifreiðafjölda.

Smelltu til að hlaða niður excel-skjali með gögnum


Meðalársnotkun bifreiða á dísilolíu 1983-2011, í hlutfalli við meðalbifreiðafjölda.

Smelltu til að hlaða niður excel-skjali með gögnum

Á myndinni hér að neðan má sjá hlutfallslega skiptingu notkunar á milli bensíns og dísilolíu á bifreiðar landsmanna. Árið 2011 var hlutfallið 57% bensín og 43% dísilolía en gert er ráð fyrir að hlutur dísilolíu muni standa í stað á spátímabilinu í samræmi við þróun síðustu ára. Ef skoðaðar eru tölur um fjölda bifreiða er hlutfallið aðeins annað. Árið 2011 voru 73% bifreiða með bensínmótor (174.219 bílar) en 27% ganga fyrir dísilolíu (63.625 bílar) og aðrir orkugjafar 449 bílar.


Skipting notkunar bensíns og dísilolíu á bifreiðar, rauntölur 1972-2011.

Smelltu til að hlaða niður excel-skjali með gögnum.