Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Varmadælur - töfrarnir í orkunýtni

Sigurður Friðleifsson, sviðsstjóri loftslagsmála, orkuskipta og nýsköpunar hjá Orkustofnun ▶︎ Spila myndband

Varmadælur - ný lög og einfaldari umsýsla

Orka getur verið á mismunandi formi og sama orkumagn getur verið misverðmætt. Raforka er t.d. hágæðaorka og ein kWh af raforku er mun verðmætari en ein kWst af hita. Sem betur fer eiga Íslendingar jarðhitann, gríðarlega auðlind sem sér 90% landsmanna fyrir ódýrri og umhverfisvænni húshitun. Þau tíu prósent sem ekki hafa aðgang að jarðhita þurfa hins vegar að notast við rafhitun sem er mun dýrari húshitunarkostur þó að ríkið niðurgreiði rafhitun að hluta. Þrátt fyrir að hlutfallslega fáir íbúar búi við rafhitun þá er hún umfangsmikill og töluverður hluti af almennri raforkunotkun í landinu. Ætla má að heildarraforkunotkun til húshitunar sé í kringum 700 GWh. Líta má á þessar GWst sem vannýtta auðlind vegna þess að auðveldlega má draga úr þessari rafhitun með stækkun hitaveitna, bættri einangrun húsa og uppsetningu varmadæla. Það er ekki skynsamleg orkunýting að nota hágæða raforku til að mynda lágæða hitaorku og þar að auki er hitunarþörf íbúða mest þegar raforkukerfið hefur minnstu framleiðslugetuna.


Hefðbundin varmadæla samanstendur af dælubúnaði og leiðslum sem mynda lokað gas/vökvakerfi. Með varmadælum er hægt að fá 2-5 kWh af hitaorku úr hverri kWh af raforku sem knýr dæluna. Með notkun varmadæla má því mæta sömu hitunarþörf með mun færri kWh af hágæða raforku.

Afkastageta raforkukerfisins skerðist ekkert með uppsetningu varmadæla sem þýðir að þær kWh sem sparast má nota í aðra uppbyggingu eða til að mæta aukinni raforkuþörf til framtíðar t.d. til orkuskipta í samgöngum. Með varmadælu er í raun verið að skila verðmætri raforku til baka inn í kerfið og því má segja að varmadælur séu okkar smæstu virkjanir. Þetta er hagkvæmasta leiðin til að mæta raforkuþörf til atvinnuuppbyggingar enda raforkan aðeins aukaafurð framkvæmda sem snúast um lækkun upphitunarkostnaðar húsnæðis. Margt smátt gerir eitt stórt og með einföldun má segja að ef rafhitun yrði helminguð með uppsetningu varmadæla þá myndi losna um 110 GWst í raforkukerfinu sem samsvarar raforkuframleiðslu Ljósafossvirkjunar og 17 sinnum meiri orku en vindmyllur Landsvirkjunar framleiða á ári.

Ný lög skila sanngjarnara kerfi

Með breytingum á lögum sem samþykkt voru á Alþingi vorið 2022 var styrktarumhverfi varmadæluuppsetninga einfaldað verulega. Með breytingunum var tekið á ýmsum vanköntum í fyrra kerfi.

Ójafnræði og tímafrek umsýsla

Eingreiðsla byggði á krónutölu niðurgreiðslna á hverju dreifisvæði sem þýddi að opinber styrkupphæð fyrir sams konar framkvæmd og árangur var mismunandi milli svæða.

Hátt flækjustig notanda

Notendur þurftu áður að fá upplýsingar um orkunotkun síðustu 5 ára, meta sjálfir tæknilegan ávinning framkvæmdarinnar, þurftu að lækka niðurgreiðslustuðul sinn út frá eigin áhættumati, þurftu að meta aukna framtíðar raforkunotkun til að lenda ekki í óþörfum kostnaði.

Tímafrek umsýsla Orkustofnunar

Í eldra kerfinu þurfti Orkustofnun að vinna að aðstoð við áætlanagerð með notendum. Vinna við samningagerð vegna eingreiðslna, vinna við endurskoðun vegna eigendaskipta og búferlaflutninga Ný lög skila af sér í mun sanngjarnara kerfi þar sem áhættan um árangur framkvæmda flyst frá neytenda til ríkis. Umsýslan varð einnig mun skilvirkari og ódýrari en samhliða innleiðingu laganna fór Orkustofnun í kerfisbreytingar á umsýslu umsókna og afgreiðslu styrkja. Notendur sækja nú rafrænt um styrki til varmadæluuppsetninga og samningagerð og undirritun er einnig komið á rafrænt form. Fyrir breytingar tók samningagerð vikur þar sem útprentaða samninga þurfti að senda fram og til baka til undirritunar og staðfestingar. Einnig þurfti að þinglýsa samningum formlega sem lagðist af með nýju kerfi. Afgreiðslutími samninga tók áður vikur en samningar eru nú afgreiddir samdægurs.

Árangur og eftirfylgni

Frá því að nýtt kerfi var innleitt á haustmánuðum 2022 hafa um 100 samningar verið afgreiddir. Miðað við meðalárangur orkusparnaðar má áætla að þessir samningar muni skila um 1,5 milljónum kWh inn í kerfið. Þetta samsvarar ársnotkun um 600 rafbíla. Fyrir utan að minnka niðurgreiðsluþörf ríkis til rafhitunar þá aukast skatttekjur ríkisins af þeirri einföldu ástæðu að rafhitaðar kWh bera 11% virðisaukaskatt en þegar þær færast yfir í rafbíla eða aðra almenna notkun fer virðisaukaskatturinn í 24%. Skatttekjur ríkis aukast því um 3,3 milljónir króna með þessum 100 verkefnum.